Ég vil vera BEBÍBO

28. maí 2009

Ímyndið ykkur eftirfarandi: órakaður og með smá ístru, með Bluetooth síma í eyranu og löngu hættur að brosa. Svalur með eina hönd á stýri og rennur á flottum bíl um göturnar: hér er leigubílstjóri á ferð. Gleymdu þessari ímynd strax aftur og öllu öðru sem þú telur þig vita um leigubílstjóra, vegna þess að nú er ÉG orðinn leigubílstjóri - en þó ekki leiður bílstjóri, haha! Ég hef ekki mikið sameiginlegt með flestum hinum bílstjórunum, enda fer ég ótroðna stigu.

Ég hef verið mikið blessaður hingað til, enda staðráðinn í að vera sigurvegari í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef sett mér markmið um að vera BEBÍBO, eða besti bílstjóri borgarinnar, og ég er ekkert að grínast. Ég er t.d. í bindi (enginn leigubílstjóri er í bindi), ég fer alltaf út úr bílnum til að taka á móti fólkinu og er að gera ýmsa hluti sem gera þetta sérstakt fyrir farþegana, sem vissulega taka eftir þessu. Nokkrir hringja í mig sérstaklega til að panta ferð síðar – er það ekki hrós?

Ég er bílstjórinn þinn, skilurðu mig. Ég gef þjónustu mína af alúð og án tillits til hver farþeginn er. Sumir farþeganna afsaka sig vegna þess að túrinn er svo stuttur. Því svara ég að lengdin skipti mig engu máli, heldur að það sé heiður fyrir mig að aka þá og að þeim líði sem best. Um daginn keyrði ég konu sem augljóslega var áfengissjúklingur, þung á sér og stafaði af henni mikil ólykt. Hún fékk sama bros frá mér og aðrir og sömu athygli. Ég tók utan um hana til að hjálpa henni út úr bílnum, þó svo að ég þurfti að halda niðri í mér andanum á meðan. Þegar ég kvaddi hana glaðlega tók ég eftir því að hún var svolítið hissa, kannski var hún ekki vön því að fólk sé almennilegt við hana. Annað dæmi: viðskiptavinur ætlaði ekki að sleppa mér vegna þess að hún talaði og talaði og varpaði á mig öllum sínum vandamálum. Þó svo að ég var búinn að gera upp við hana, gaf ég henni nokkrar mínútur til að hlusta. Ég gat ekki leyst vandamál hennar en ég gaf henni kram og bros og bað Guð um að blessa hana.

Til eru leigubílstjórar sem gera nánast hvað sem er til að hámarka veltuna sína. Ég legg hinsvegar áherslu á gæði og heiðarleika, sem reyndar hefur skilað mikilli veltu samt sem áður. Þegar aðrir bílstjórar svína á mig til að vera á undan mér í röðinni eða taka þá farþega sem áttu að vera mínir, þá verð ég ekki gramur, heldur sé þarna tækifæri vegna þess að þá veit ég að næsti farþegi hlýtur að vera mjög sérstakur. Og þannig er það alltaf!

Ég hef keyrt leikskólabörn í bíó (GAMAN!!), Færeyinga sem komu á Listahátíð, mismunandi fólk sem hefur starfað með pabba mínum, Þjóðverja sem þekkir sama fólkið og ég og marga aðra skemmtilega farþega! Þetta er bara skemmtilegt því maður fær smá þversnið af lífinu sjálfu.

En alltaf koma samt sem áður einhverjar hindranir, en þær eru til að komast yfir en ekki til að gefast upp. Það sprakk hjá mér t.d. dekk á háannatímanum undir sunnudagsmorgun s.l. helgi (skrítið, það sprakk líka hjá mér á hinum leigubílnum), en ég reif bara verkfærin úr skottinu og setti varadekkið á og hélt áfram akstrinum og setti samt persónulegt veltumet!

Ef til vill hef ég uppgötvað nýja hlið af sjálfum mér sem mér líkar mjög vel við. Ég er sáttur og þakklátur og staðráðinn í að vera gefandi, maður fær reyndar svo mikið tilbaka. Þetta kennir mér líka og staðfestir að maður þarf ekki endilega að gera alla hluti eins og allir aðrir gera þá. Það er til betri leið!

Vinnan og vorið

19. maí 2009

Nú er þessi yndislega veðurblíða komin sem gerir öllum skólakrökkum bara illt, því að einbeitingin leitar út í svona björtu veðri.

Ég hef verið í leigubílaakstri í eina viku og líkaði mér mjög vel. Í fyrsta lagi var það bara yndislegt að geta unnið aftur eftir rúma 2 mánuði. En það var ekki bara það. Ég virðist hafa átt auðvelt með að mynda tengsl við farþega mína, flesta þeirra að minnsta kosti. Það var mjög gefandi að hitta mismunandi fólk og tala við það. Þetta var vika mikils bross og ánægju. Mér fannst ég líka hafa fengið “þversnið” af lífinu í Reykjavík, t.d. að byrja daginn með að aka leikskólabörn í Háskólabíó (spenningur hjá þeim sem ég tók þátt í), sækja síðan Færeyinga á vegum Þjóðleikhússins sem verða þátttakendur Listahátíða, skutla vísindamanni sem vann í sama húsi og faðir minn (Hafrannsóknarstofnun) og ótal margt annað sem gaf mér vissa mynd af lífinu sjálfu. Þetta fannst mér mjög athyglisvert.

Nú, síðan er ég búinn að eyða tíma í Sólhúsum, til húsa í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar eru samræður í gangi hvort ég eigi að stíga um borð hjá þeim, en það yrði bæði þýðingar úr og í þýsku og verkefnisstjórn byggingarframkvæmda. Þetta hljómar allt mjög áhugavert og í raun líklegt að við náum saman. Spurningin er bara hvernig.

Ég hef eytt mörgum dögum í GoTravelIceland, ferðamannafyrirtæki sem Gummi er einn aðaleigandi í. Ég hef farið í nokkrar ferðir með þeim til að læra, hef grúskað í tölvunni þeirra og jafnvel málað skrifstofuna þeirra og gert ýmislegt. Það stendur til að ég fari að starfa eftir þörfum hjá þeim sem akandi leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn.

Eins og sést, þá er ýmislegt að spila úr og ekkert ólíklegt að úr verði kokteill úr öllu þessu. Jafnvel þó að verkefnisstjórnin er mjög freistandi, þá er einhver frelsisþrá vöknuð í mér á þessum yndislega vordegi, það er að segja þráin til að fara út að aka, hvort sem í ferðalög eða bæjarferðir. Ég er að minnsta kosti mjög vongóður að ég eigi eftir að spjara mig í sumar og jafnvel spjara mig bara mjög vel.

Forgangsröð

4. febrúar 2009

Föstudaginn 30. janúar var haldinn opinn fundur með Sjálfstæðisflokknum þar sem Geir H. Haarde fráfarandi forsætisráðherra hélt ræðu um stöðu mála og hversvegna gamla ríkisstjórnin leystist upp. Þegar hann var að tala um veikindi sín sagði hann nokkuð sem mér þótti athyglisvert, nefnilega að forgangsröð málefna væri sú að í fyrsta lagi kæmi þjóðin, í öðru lagi flokkurinn en að lokum persónuleg málefni (hér veikindi hans). Ég hef velt þessari forgangsröð svolítið fyrir mér og jafnvel þó að ég hafi ekkert við hana að athuga í hans tilfelli og þótt ég þykist vita hvað hann hafi átti við með orðum sínum, þá hef ég sannfæringu minni samkvæmt skilgreint forgangsröð í lífi mínu aðeins öðruvísi. 

Mig langar að koma með líkingu og ímynda mér að ég sé að sitja í flugvél sem er að leggja af stað í áttina að flugbrautinni. Flugfreyjur skýra frá öryggismálum um borð og sýna hvernig maður eigi að bera sig að ef hætta skyldi steðja að. Talandi um súrefnisgrímur sem falla niður, segja þær að sé maður að ferðast með lítil börn, eigi maður að setja á sig grímuna sjálfur fyrst en aðstoða síðan barnið. Ástæðan er augljós: Ef maður fær ekki sjálfur nægilegt súrefni er sú hætta fyrir hendi að barnið fái heldur ekki þá aðstoð sem það þarfnast. Meðvitundarlaust foreldri er gangslaus bjargvættur en með súrefnisgrímuna á andlitinu er hægt að veita „ótakmarkaða“ aðstoð út á við. 

Með öðrum orðum, ef maður er ekki að virka sjálfur, hvernig á maður þá að aðstoða aðra? Sagði ekki Ghandi að ef blindur leiðir blindan munu báðir enda í skurðinum? Af þessum sökum hef ég sett sjálfan mig efst á forgangslistann, þó ekki eigin þægindi heldur eigið öryggi. Með „ég sjálfur“ á ég samtímis við konu mína og börn. Vellíðan og öryggi í fjölskyldu minni er allra efst í huga mér. Í því felast eftirfarandi hlutverk:

  1. Samráð, áætlanir og rækta samband við maka á grundvelli ástar og trausts
  2. Uppeldi barnanna í formi kennslu, samtölum og samveru og gefa þeim öryggistilfinningu og kærleika
  3. Öflun tekna til framfærslu fjölskyldunnar
  4. „Skerpa sögina“ á öllum þremur þáttum hér á undan með hverskonar undirbúningi 

Á eftir þessu er hægt að setja þjóðina eða aðra á forgangslistann, eftir að búið er að tryggja að ég sjálfur geti aðstoðað „ótakmarkað“ út á við. Hvað gagnar mér það að ég sé að þjóna samfélaginu ef fjölskyldan mín, sem í raun er grundvöllur samfélagsins, sé að molna á sama tíma? Við myndum öll enda í skurðinum. 

Nú höfum við öll tækifæri til að byggja upp land okkar og samfélag með því einu að rækta sambönd og skyldur okkar í fjölskyldum okkar og á þann hátt styrkt þá undirstöður sem samfélagið hvílir á. Forgangsröðum rétt!

Ljósatilbrigði

3. febrúar 2009

Ef lýsa ætti blindum manni það sem fyrir augu mín bar, bæði í morgun þegar sólin var að koma upp og í gærkvöldi þegar hún var að setjast, þá gæti það orðið erfitt. En það var yndisleg sjón.

Þegar ég ók austur yfir heiðina í gærkvöldi, skinu síðustu sólargeislar yfir snæviþakta jörðu og fjöll. Snjórinn var orðinn appelsínugulur og himininn logaði. Fjöllinn orðin rauð í stað hvít. Þetta gladdi mig ákaft og gaf mér vissa gleði. Sömu sögu er að segja um fyrstu sólargeisla dagsins, bæði í morgun en einnig í gær. Dökkblár litur næturhiminsins blandast morgunroðanum þar til ljósið og roðinn verður yfirgnæfandi og himininn handan Bláfjalla byrjar að loga. Þegar fyrstu geislar ná að skína og falla á Esjuna er fjallið komið í rauðan búning með svartar skuggastrípur. Maður horfir á og fyllist djúpri virðingu fyrir náttúrunni og skapara hennar.

Ótrúlegt hvað ljós getur snortið mann. Ljós er ekki bara birta og hlýja, heldur einnig fegurð og vegvísir. Þar sem ljósið er verður myrkrið að víkja. Sagt hefur verið að dýrð Guðs séu vitsmunir, eða með öðrum orðum ljós og sannleikur. Er hægt að setja þetta upp í formúlu?

Dýrð Guðs  =  Vitsmunir  =  Ljós  +  Sannleikur

Þetta eru stór hugtök með djúpar rætur en hér þarf tíma til umhugsunar. Sannleik tel ég vera grundvallarreglur eða lögmál. Sé farið eftir þessum lögmálum erum við laus og frjáls við fjötra slæmra ávana og “lögleysu” en ritningin talar um að sannleikurinn muni gera okkur frjálsa.

Ljós hinsvegar veitir okkur kraft og lífsgleði, líkt og ég fann á heiðinni í gærkvöldi á leiðinni heim. Ljós skín innra með okkur og veitir okkur leiðsögn. Það er öllum mönnum gefið og vex þegar við veitum því athygli en dafnar þegar við hunsum það. Þetta ljós hjálpar okkur að þekkja greinarmun á góðu og illu og hvetur okkur til réttra ákvarðana. Á sama tíma gefur þetta ljós okkur innri frið sem vex og dafnar í hlutfalli við þá athygli sem við gefum ljósinu. Gefum því þessvegna svigrúm í hjötum okkar og leyfum því að lýsa.

Klukkan tifar og eftir rúmar 3 vikur er ég orðinn atvinnulaus ef ekkert gerist á undan. Þó er ég fullviss um að allt muni fara vel. Ég reyni að halda mér í ljósinu og njóta krafts þess.

Atvinnumál

19. janúar 2009

Í kjölfari efnahagskreppunnar og mikils samdráttar í byggingargeiranum hefur mér ásamt nokkrum öðrum í fyrirtækinu verið sagt upp störfum hjá Hnit. Það er í fyrstu andrá að sjálfsögðu hið versta mál enda er starf eins ein af burðarsúlum lífsins, eða a.m.k. er tekjur eins það. Þó svo að ekkert nýtt hefur komið inn, finnst mér þessi breyting sem mun eiga sér stað 1. mars ekki endilega hið versta mál lengur. Ég sé þetta sem ágætis tækifæri og vænti þess að eitthvað gott spretti úr þessu.

Það er að sjálfsögðu ekki úr miklu að taka en um margt að íhuga. Samtals hef ég sent 20 umsóknir síðan í nóvember. Fimm hef ég fengið í hausinn og farið í viðtal tvisvar. Það er einhver hreyfing í gangi og ég er viss um að það rætist úr þessu á ásættanlegan hátt.

Ég hef trú á mér og veit að ég get gefið gott framlag í samfélaginu með því að vera traustur starfsmaður. Þetta er bara spurning um tíma.

Eftir skirnina   Góður piltavinahópur   Það var 13. janúar 1979 þegar ég tók skírn hjá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, eða með öðrum orðum hjá Mormónum. Ótrúlegt hve tíminn líður hratt. Ég var einungis 14 ára gamall snáði þá, fullviss um að ég væri að gera það rétta og óhræddur um hvað bekkjafélagar mínir og aðrir vinir fyndist um þetta. Mér finnst að þetta umræðuefni hafi verið mikið tabú en þó var ég inntur eftir þessum málum einstöku sinnum.

Þegar ég horfi á líf mitt tilbaka í dag, þá get ég séð allt hið góða sem gerst hefur í kjölfar trúarskrefs míns. Ég nýt svo sannarlega ávexti “erfiðis” míns enda hefur mér verið hlíft frá mörgum ógöngum og ég er mikið blessaður maður. Allt virðist hafa gengið upp hvað varðar burðarsúlur lífsins, eins og yndisleg kona mín og fimm börn okkar, búsetur okkar í mismunandi löndum og þau störf sem ég hef sinnt.

Þó svo að ég sé á fullu með Bettinu konu minni að ala upp heilbrigða fjölskyldu og jafnvel þó að mikið hefur verið náð, þá er mikið verk eftir óunnið. Að sjálfsögðu er það ævistarf að byggja upp sitt hamingjuríki og auðvitað liggja leiðir okkar oft í gegnum margs konar erfiðleika eins og væntanlega hjá öllum öðrum líka. En mér finnst ég hafa “verkfæri” í höndum mínum til þess að geta tekist á við allar okkar áskoranir. Maður talar um að trúin flytur fjöll en það er svo sannarlega kraftur í henni sem þeytir okkur áfram.

Á þessari stundu er ég mjög þakklátur. Lífið hefur gefið mér svo ótrúlega margt og það er margföld ástæða til að fagna og færa þakkir.

Gleðilegt ár!

1. janúar 2009

Gamlárskvöld Við ákváðum að eyða Gamlárskvöldi heima fyrir. Mikið gaman hjá okkur þó að við söknuðum öll Jósefs. Við borðuðum Kjöt-Fondue sem öllum fannst yndislega gott og ég bjó til þessa gómsætu bollu með ávöxtum sem var mjög vinsæll drykkur.

Áramótaskaupið? Við slökktum á því eftir aðeins 2 mínútur…

Hinsvegar dönsuðum við heima fyrir við Abba-lög (stelpurnar fengu Mamma Mia! DVD myndina í jólagjöf) og var mikið stuð. Seinna fórum við út á útsýnispall í Kömbunum til að skoða flugeldana.

Maður veltur því fyrir sér hvað eigi eftir að gerast á árinu. Helsta von okkar allra í fjölskyldunni er að sjálfsögðu sú að ég fái vinnu og sleppi við að sogast út í vanskil og fjárhagslega erfiðleika. Einnig er heit ósk allra að fá að fara til Þýskalands í ár og hitta ættingjana þar sem við erum svo nátengd. Þrátt fyrir slæmar horfur er ég mjög vongóður um að allt fari vel.

Yndisleg jól

31. desember 2008

Jólatré úr Hveragerði Við áttum yndisleg jól hér í Hveragerði. Jósef varð 17 ára á Aðfangadag, en nei, hann er ekki einu sinni byrjaður í ökuskóla.

Þegar ég lít tilbaka til jólanna, fyllist ég þakklæti fyrir fjölskyldu mína. Ég á svo sannarlega mikinn auð í þeim. Krakkarnir og þá sérstaklega stelpurnar voru yfir sig hamingjusamar yfir jólin. Gjafir okkar voru alls ekkert dýrar eða sérstakar á þann hátt enda ég búinn að missa vinnuna. Samt sem áður tókst okkur að gleðja með tiltölulega litlu. Samt sem áður verður að geta þess að Christian, bróðir Bettinu, var hér um daginn og færði okkur varning, sælgæti og búbót úr Þýskalandi sem auðveldaði okkur svolítið fyrir.

En hamingja í fjölskyldunni kemur ekki að utan, t.d. mælt í stærð, fjölda eða verðmæti pakka, heldur kemur hann innan frá. Friður kemur einnig að innan en friður er ekki að “vera látinn í friði” heldur fremur að halda jafnvægi í lífinu, vera þakklátur og þekkja hinna sanna auð sem Drottinn blessar okkur með. Einn dýrmætasti auðurinn er einmitt fjölskyldan en eins og ég ritaði áðan, fylltist ég sérstöku þakklæti fyrir yndislega fjölskyldu mína.

Tvær ungar stúlkur, sjálfboðaliðar í Heilsustofnuninni, voru hjá okkur á Aðfangadagskvöld. Önnur þeirra er bandarísk en hin frá Þýskalandi. Matur, lifandi tónlist og spenningur barnanna voru náttúrulega hápunktar kvöldsins. Ég fékk þessa fínu sjálfprjónuðu húfu frá frúnni!

Í Leifsstöðinni Á annan í jólum fór Jósef til Þýskalands til að heimsækja ættingja og vini og verður þar í tvær vikur. Hann var búinn að hlakka mikið til þessarar ferðar og spara fyrir henni.

Laugardaginn “þriðja” í jólum vorum við með jólaboð þar sem bræður mínir komu ásamt fjölskyldum þeirra. Mikið fjör og góður matur…

Jólatónar

22. desember 2008

Seinni partinn í gær, sunnudags, var haldin jólakvöldvaka í safnaðarheimilinu á Selfossi þar sem mikið var um söng og tónspil. Krakkarnir okkar voru dugleg við að spila á fiðlur, selló og klarinettu en Bettina lék af og til undir á blokkflautu og ég tók tvö lög á gítarnum.

Bettina og Karólna Einnig píndi Bettina mig til að syngja með sér tvíraddað jólalag en ég er sko enginn söngvari, það er á hreinu. En þetta var mikið gaman! Jólasögur frá Sveinbjörgu og Gretu skiluðu fallegum boðskap og söngur Systur Bremners og Karitasar yljaði hjartað. Valla sá um stjórnunina sem sýndi sig mjög sveiganlega en allt gekk þetta vel. Jóhann greinarforseti sagði nokkur lokaorð og þakkaði fyrir vel heppnaða kvöldvöku og hrósaði yngri kynslóðinni og hæfileika þeirra.

Matur og hressing var í boði á eftir með meðal annars súpu, heita og kalda rétti, ljúffengt salat og heitt súkkulaði. Búið var að skreyta með skreyttum greinum og jólaseríum. Yndisleg stund sem fleiri hefðu mátt koma í.

Jakob á afmæli

19. desember 2008

Við strendur Danmerkur Til hamingju með afmælið Jakob Örn!

Litli bókaormurinn okkar er orðinn 14 ára. Afmælishefðir okkar eru þannig að allir hinir í fjölskyldunni safnast saman, venjulega í stofunni, eru búin að skreyta eitthvað og setja gjafir á borð og kveikja á kerti. Þegar allir eru tilbúnir verður afmælisbarnið vakið með söng. Ef afmælisbarn vaknar áður en það er vakið, þá verður það bara að þykjast sofa… Nú, síðan þegar viðkomandi kemur er honum óskað til hamingju með kossum og látum og híft upp í loftið þrisvar í stól með viðeigandi versum.

Í dag hins vegar þurfti ég að fara kl. 7:00 úr húsi en krakkarnir áttu að mæta í skólann kl. 9:00 (nema Jósef sem á frí) og eftir mikla tiltekt í gærkvöldi voru allir þreyttir í morgun. Ég missti sem sagt af fjörinu en í þetta sinn fór Bettina og systkinin inn í herbergið til Jakobs með söng, köku og gjafir. Jakob var hæstánægður með þriðju Eragon bókina sem hann er búinn að bíða eftir svo lengi.

Ótrúlegt að þessi litli töffari er orðinn 14 ára!!    Jakob með sólgleraugu sumarið 2008