Yndisleg jól

31. desember 2008

Jólatré úr Hveragerði Við áttum yndisleg jól hér í Hveragerði. Jósef varð 17 ára á Aðfangadag, en nei, hann er ekki einu sinni byrjaður í ökuskóla.

Þegar ég lít tilbaka til jólanna, fyllist ég þakklæti fyrir fjölskyldu mína. Ég á svo sannarlega mikinn auð í þeim. Krakkarnir og þá sérstaklega stelpurnar voru yfir sig hamingjusamar yfir jólin. Gjafir okkar voru alls ekkert dýrar eða sérstakar á þann hátt enda ég búinn að missa vinnuna. Samt sem áður tókst okkur að gleðja með tiltölulega litlu. Samt sem áður verður að geta þess að Christian, bróðir Bettinu, var hér um daginn og færði okkur varning, sælgæti og búbót úr Þýskalandi sem auðveldaði okkur svolítið fyrir.

En hamingja í fjölskyldunni kemur ekki að utan, t.d. mælt í stærð, fjölda eða verðmæti pakka, heldur kemur hann innan frá. Friður kemur einnig að innan en friður er ekki að “vera látinn í friði” heldur fremur að halda jafnvægi í lífinu, vera þakklátur og þekkja hinna sanna auð sem Drottinn blessar okkur með. Einn dýrmætasti auðurinn er einmitt fjölskyldan en eins og ég ritaði áðan, fylltist ég sérstöku þakklæti fyrir yndislega fjölskyldu mína.

Tvær ungar stúlkur, sjálfboðaliðar í Heilsustofnuninni, voru hjá okkur á Aðfangadagskvöld. Önnur þeirra er bandarísk en hin frá Þýskalandi. Matur, lifandi tónlist og spenningur barnanna voru náttúrulega hápunktar kvöldsins. Ég fékk þessa fínu sjálfprjónuðu húfu frá frúnni!

Í Leifsstöðinni Á annan í jólum fór Jósef til Þýskalands til að heimsækja ættingja og vini og verður þar í tvær vikur. Hann var búinn að hlakka mikið til þessarar ferðar og spara fyrir henni.

Laugardaginn “þriðja” í jólum vorum við með jólaboð þar sem bræður mínir komu ásamt fjölskyldum þeirra. Mikið fjör og góður matur…Lokað er fyrir ummæli.