Ljósatilbrigði

3. febrúar 2009

Ef lýsa ætti blindum manni það sem fyrir augu mín bar, bæði í morgun þegar sólin var að koma upp og í gærkvöldi þegar hún var að setjast, þá gæti það orðið erfitt. En það var yndisleg sjón.

Þegar ég ók austur yfir heiðina í gærkvöldi, skinu síðustu sólargeislar yfir snæviþakta jörðu og fjöll. Snjórinn var orðinn appelsínugulur og himininn logaði. Fjöllinn orðin rauð í stað hvít. Þetta gladdi mig ákaft og gaf mér vissa gleði. Sömu sögu er að segja um fyrstu sólargeisla dagsins, bæði í morgun en einnig í gær. Dökkblár litur næturhiminsins blandast morgunroðanum þar til ljósið og roðinn verður yfirgnæfandi og himininn handan Bláfjalla byrjar að loga. Þegar fyrstu geislar ná að skína og falla á Esjuna er fjallið komið í rauðan búning með svartar skuggastrípur. Maður horfir á og fyllist djúpri virðingu fyrir náttúrunni og skapara hennar.

Ótrúlegt hvað ljós getur snortið mann. Ljós er ekki bara birta og hlýja, heldur einnig fegurð og vegvísir. Þar sem ljósið er verður myrkrið að víkja. Sagt hefur verið að dýrð Guðs séu vitsmunir, eða með öðrum orðum ljós og sannleikur. Er hægt að setja þetta upp í formúlu?

Dýrð Guðs  =  Vitsmunir  =  Ljós  +  Sannleikur

Þetta eru stór hugtök með djúpar rætur en hér þarf tíma til umhugsunar. Sannleik tel ég vera grundvallarreglur eða lögmál. Sé farið eftir þessum lögmálum erum við laus og frjáls við fjötra slæmra ávana og “lögleysu” en ritningin talar um að sannleikurinn muni gera okkur frjálsa.

Ljós hinsvegar veitir okkur kraft og lífsgleði, líkt og ég fann á heiðinni í gærkvöldi á leiðinni heim. Ljós skín innra með okkur og veitir okkur leiðsögn. Það er öllum mönnum gefið og vex þegar við veitum því athygli en dafnar þegar við hunsum það. Þetta ljós hjálpar okkur að þekkja greinarmun á góðu og illu og hvetur okkur til réttra ákvarðana. Á sama tíma gefur þetta ljós okkur innri frið sem vex og dafnar í hlutfalli við þá athygli sem við gefum ljósinu. Gefum því þessvegna svigrúm í hjötum okkar og leyfum því að lýsa.

Klukkan tifar og eftir rúmar 3 vikur er ég orðinn atvinnulaus ef ekkert gerist á undan. Þó er ég fullviss um að allt muni fara vel. Ég reyni að halda mér í ljósinu og njóta krafts þess.Lokað er fyrir ummæli.