Forgangsröð

4. febrúar 2009

Föstudaginn 30. janúar var haldinn opinn fundur með Sjálfstæðisflokknum þar sem Geir H. Haarde fráfarandi forsætisráðherra hélt ræðu um stöðu mála og hversvegna gamla ríkisstjórnin leystist upp. Þegar hann var að tala um veikindi sín sagði hann nokkuð sem mér þótti athyglisvert, nefnilega að forgangsröð málefna væri sú að í fyrsta lagi kæmi þjóðin, í öðru lagi flokkurinn en að lokum persónuleg málefni (hér veikindi hans). Ég hef velt þessari forgangsröð svolítið fyrir mér og jafnvel þó að ég hafi ekkert við hana að athuga í hans tilfelli og þótt ég þykist vita hvað hann hafi átti við með orðum sínum, þá hef ég sannfæringu minni samkvæmt skilgreint forgangsröð í lífi mínu aðeins öðruvísi. 

Mig langar að koma með líkingu og ímynda mér að ég sé að sitja í flugvél sem er að leggja af stað í áttina að flugbrautinni. Flugfreyjur skýra frá öryggismálum um borð og sýna hvernig maður eigi að bera sig að ef hætta skyldi steðja að. Talandi um súrefnisgrímur sem falla niður, segja þær að sé maður að ferðast með lítil börn, eigi maður að setja á sig grímuna sjálfur fyrst en aðstoða síðan barnið. Ástæðan er augljós: Ef maður fær ekki sjálfur nægilegt súrefni er sú hætta fyrir hendi að barnið fái heldur ekki þá aðstoð sem það þarfnast. Meðvitundarlaust foreldri er gangslaus bjargvættur en með súrefnisgrímuna á andlitinu er hægt að veita „ótakmarkaða“ aðstoð út á við. 

Með öðrum orðum, ef maður er ekki að virka sjálfur, hvernig á maður þá að aðstoða aðra? Sagði ekki Ghandi að ef blindur leiðir blindan munu báðir enda í skurðinum? Af þessum sökum hef ég sett sjálfan mig efst á forgangslistann, þó ekki eigin þægindi heldur eigið öryggi. Með „ég sjálfur“ á ég samtímis við konu mína og börn. Vellíðan og öryggi í fjölskyldu minni er allra efst í huga mér. Í því felast eftirfarandi hlutverk:

  1. Samráð, áætlanir og rækta samband við maka á grundvelli ástar og trausts
  2. Uppeldi barnanna í formi kennslu, samtölum og samveru og gefa þeim öryggistilfinningu og kærleika
  3. Öflun tekna til framfærslu fjölskyldunnar
  4. „Skerpa sögina“ á öllum þremur þáttum hér á undan með hverskonar undirbúningi 

Á eftir þessu er hægt að setja þjóðina eða aðra á forgangslistann, eftir að búið er að tryggja að ég sjálfur geti aðstoðað „ótakmarkað“ út á við. Hvað gagnar mér það að ég sé að þjóna samfélaginu ef fjölskyldan mín, sem í raun er grundvöllur samfélagsins, sé að molna á sama tíma? Við myndum öll enda í skurðinum. 

Nú höfum við öll tækifæri til að byggja upp land okkar og samfélag með því einu að rækta sambönd og skyldur okkar í fjölskyldum okkar og á þann hátt styrkt þá undirstöður sem samfélagið hvílir á. Forgangsröðum rétt!Lokað er fyrir ummæli.