Vinnan og vorið

19. maí 2009

Nú er þessi yndislega veðurblíða komin sem gerir öllum skólakrökkum bara illt, því að einbeitingin leitar út í svona björtu veðri.

Ég hef verið í leigubílaakstri í eina viku og líkaði mér mjög vel. Í fyrsta lagi var það bara yndislegt að geta unnið aftur eftir rúma 2 mánuði. En það var ekki bara það. Ég virðist hafa átt auðvelt með að mynda tengsl við farþega mína, flesta þeirra að minnsta kosti. Það var mjög gefandi að hitta mismunandi fólk og tala við það. Þetta var vika mikils bross og ánægju. Mér fannst ég líka hafa fengið “þversnið” af lífinu í Reykjavík, t.d. að byrja daginn með að aka leikskólabörn í Háskólabíó (spenningur hjá þeim sem ég tók þátt í), sækja síðan Færeyinga á vegum Þjóðleikhússins sem verða þátttakendur Listahátíða, skutla vísindamanni sem vann í sama húsi og faðir minn (Hafrannsóknarstofnun) og ótal margt annað sem gaf mér vissa mynd af lífinu sjálfu. Þetta fannst mér mjög athyglisvert.

Nú, síðan er ég búinn að eyða tíma í Sólhúsum, til húsa í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar eru samræður í gangi hvort ég eigi að stíga um borð hjá þeim, en það yrði bæði þýðingar úr og í þýsku og verkefnisstjórn byggingarframkvæmda. Þetta hljómar allt mjög áhugavert og í raun líklegt að við náum saman. Spurningin er bara hvernig.

Ég hef eytt mörgum dögum í GoTravelIceland, ferðamannafyrirtæki sem Gummi er einn aðaleigandi í. Ég hef farið í nokkrar ferðir með þeim til að læra, hef grúskað í tölvunni þeirra og jafnvel málað skrifstofuna þeirra og gert ýmislegt. Það stendur til að ég fari að starfa eftir þörfum hjá þeim sem akandi leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn.

Eins og sést, þá er ýmislegt að spila úr og ekkert ólíklegt að úr verði kokteill úr öllu þessu. Jafnvel þó að verkefnisstjórnin er mjög freistandi, þá er einhver frelsisþrá vöknuð í mér á þessum yndislega vordegi, það er að segja þráin til að fara út að aka, hvort sem í ferðalög eða bæjarferðir. Ég er að minnsta kosti mjög vongóður að ég eigi eftir að spjara mig í sumar og jafnvel spjara mig bara mjög vel.Ein ummæli við „Vinnan og vorið“

  1. María Helga Guðmundsdóttir ritaði:

    Jæja Ronald, frábær færsla hjá þér.

    Sýnir vel að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og taka oft óvænta stefnu.:-)

    Gangi þér allt í haginn, kv úr Suðursveit,Maja.