Ég vil vera BEBÍBO

28. maí 2009

Ímyndið ykkur eftirfarandi: órakaður og með smá ístru, með Bluetooth síma í eyranu og löngu hættur að brosa. Svalur með eina hönd á stýri og rennur á flottum bíl um göturnar: hér er leigubílstjóri á ferð. Gleymdu þessari ímynd strax aftur og öllu öðru sem þú telur þig vita um leigubílstjóra, vegna þess að nú er ÉG orðinn leigubílstjóri - en þó ekki leiður bílstjóri, haha! Ég hef ekki mikið sameiginlegt með flestum hinum bílstjórunum, enda fer ég ótroðna stigu.

Ég hef verið mikið blessaður hingað til, enda staðráðinn í að vera sigurvegari í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef sett mér markmið um að vera BEBÍBO, eða besti bílstjóri borgarinnar, og ég er ekkert að grínast. Ég er t.d. í bindi (enginn leigubílstjóri er í bindi), ég fer alltaf út úr bílnum til að taka á móti fólkinu og er að gera ýmsa hluti sem gera þetta sérstakt fyrir farþegana, sem vissulega taka eftir þessu. Nokkrir hringja í mig sérstaklega til að panta ferð síðar – er það ekki hrós?

Ég er bílstjórinn þinn, skilurðu mig. Ég gef þjónustu mína af alúð og án tillits til hver farþeginn er. Sumir farþeganna afsaka sig vegna þess að túrinn er svo stuttur. Því svara ég að lengdin skipti mig engu máli, heldur að það sé heiður fyrir mig að aka þá og að þeim líði sem best. Um daginn keyrði ég konu sem augljóslega var áfengissjúklingur, þung á sér og stafaði af henni mikil ólykt. Hún fékk sama bros frá mér og aðrir og sömu athygli. Ég tók utan um hana til að hjálpa henni út úr bílnum, þó svo að ég þurfti að halda niðri í mér andanum á meðan. Þegar ég kvaddi hana glaðlega tók ég eftir því að hún var svolítið hissa, kannski var hún ekki vön því að fólk sé almennilegt við hana. Annað dæmi: viðskiptavinur ætlaði ekki að sleppa mér vegna þess að hún talaði og talaði og varpaði á mig öllum sínum vandamálum. Þó svo að ég var búinn að gera upp við hana, gaf ég henni nokkrar mínútur til að hlusta. Ég gat ekki leyst vandamál hennar en ég gaf henni kram og bros og bað Guð um að blessa hana.

Til eru leigubílstjórar sem gera nánast hvað sem er til að hámarka veltuna sína. Ég legg hinsvegar áherslu á gæði og heiðarleika, sem reyndar hefur skilað mikilli veltu samt sem áður. Þegar aðrir bílstjórar svína á mig til að vera á undan mér í röðinni eða taka þá farþega sem áttu að vera mínir, þá verð ég ekki gramur, heldur sé þarna tækifæri vegna þess að þá veit ég að næsti farþegi hlýtur að vera mjög sérstakur. Og þannig er það alltaf!

Ég hef keyrt leikskólabörn í bíó (GAMAN!!), Færeyinga sem komu á Listahátíð, mismunandi fólk sem hefur starfað með pabba mínum, Þjóðverja sem þekkir sama fólkið og ég og marga aðra skemmtilega farþega! Þetta er bara skemmtilegt því maður fær smá þversnið af lífinu sjálfu.

En alltaf koma samt sem áður einhverjar hindranir, en þær eru til að komast yfir en ekki til að gefast upp. Það sprakk hjá mér t.d. dekk á háannatímanum undir sunnudagsmorgun s.l. helgi (skrítið, það sprakk líka hjá mér á hinum leigubílnum), en ég reif bara verkfærin úr skottinu og setti varadekkið á og hélt áfram akstrinum og setti samt persónulegt veltumet!

Ef til vill hef ég uppgötvað nýja hlið af sjálfum mér sem mér líkar mjög vel við. Ég er sáttur og þakklátur og staðráðinn í að vera gefandi, maður fær reyndar svo mikið tilbaka. Þetta kennir mér líka og staðfestir að maður þarf ekki endilega að gera alla hluti eins og allir aðrir gera þá. Það er til betri leið!Ein ummæli við „Ég vil vera BEBÍBO“

  1. St. Pie ritaði:

    Frábær þjónusta, Ronni, einlæg og alúðleg!! Þessi orð hefur kona aldrei sett í samband við leigubílstjóra áður. Þú ert og hefur alltaf verið spes:)

    Segðu Færeyingunum þínum frá þessu:
    http://www.flickr.com/photos/stpie/3993541025/

    Xx Steinunn Björk