Eftirfarandi grein skrifaði ég í Umræðu Morgunblaðsins og sem var birt 20.11.2008:

Staðföst og óbifanleg.

Það er ekki langt síðan að við stærðum okkur af því að Ísland væri besta landið í heiminum til að búa í og að lífsgæðin hér væru með hinu allra göfugasta móti. Í þessari sigurvímu og sjálfsánægju hefur þjóðin öll skyndilega fengið stórt kjaftshögg og dottið niður. Við heyrum enn sársaukahrópin og erum nú að vakna úr áfallinu og að reyna að átta okkur á því hvað í ósköpunum gerðist eiginlega. Okkur blæðir og við finnum til. Á sama tíma hafa tilfinningar okkar og þjóðarstolt verið sært. Reiði, særð réttlætiskennd og hneyksli eru meðal þeirra tilfinninga sem flætt hafa um okkur. Vofur óttans, kjarkleysis og vonleysis svífa yfir okkur líkt og hungraðir hrægammar þegar við heyrum um fjöldaatvinnuleysi, vaxandi verðbólgu og hækkandi lán. Sumir hafa þrammað niður á Austurvöll og kallað „Ekki meir, Geir!“ og farið í „Davíð-stríð“ í þeirri von um að hausar ábyrgra aðila muni rúlla.

Það sem svo er svekkjandi er að maðurinn sem gaf kjaftshöggið virðist vera ósýnilegur. Hvern á að draga til ábyrgðar, kæra, lögsækja? Er það einhver einn eða kannski ákveðinn lokaður klúbbur? Margt af því sem gerst hefur, minnir óneitanlega á leynimakk, samráð á milli þeirra sem stjórna bæði embættum og auði. Með aðild í slíkum klúbbi gæti maður fengið ýmis tvísýn hlunnindi og komist upp með þau. Mafía er hugtak sem á uppruna sinn á Ítalíu en er löngu orðið þekkt sem skipulögð og kerfisbundin glæpastarfsemi um heim allan. Höfum við verið lostin af hinni íslensku Mafíu?

Komnir eru nýir og breyttir tímar, um það eru allir sammála.  Ég vona að við séum einnig sammála um það að nýir vindar verði að leiða okkur inn í framtíðina og í gegnum þennan erfiða tíma. Ég vil kalla fram nýjar hæfniskröfur þeirra sem stjórna eiga bæði landi og fjármálum. Hvað með eiginleika eins og heiðarleika, flekkleysi, trúverðugleika, meiri föðurlandsást, tillitssemi og óeigingirni sem kröfur umfram þær sem almennt eru settar? Hvað embættismenn þjóðarinnar varðar, á meðan þeir taka eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni þjóðarinnar, þá erum við á beinni leið til glötunar og munum fá enn fleiri kjaftshögg, aftur og aftur.

Til er betri leið. Ég hugsa jákvætt og hlýtt til yngri kynslóðar sem hefur kjark og þrótt, er flekklaus, dugleg og fús til að axla ábyrgð. Ég hugsa til tveggja sona vina minna sem hvor um sig er námsmaður og báðir í giftingarhugleiðingum á næsta ári. Báðir horfa þeir jákvætt og brosandi fram á við, báðir eru á fullu að smíða sér hamingjuríka framtíð. Ég sé glaða og óeigingjarna unglinga og ungmenni. Ég sé að þau búa yfir þeim eiginleikum sem eru mikið þarfaþing meðal fremstu höfðingja þjóðarinnar. Svo sannarlega eru þeir til sem eru staðfastir grundvallarreglum sínum, óbifanlegir í ólgusjó heimsins og hafa það sjálfstraust og þann kjark að skapa góða sameiginlega framtíð og byggja upp þetta land. Um leið og við horfum fram á við, verðum við að muna eftir því að teygja hendi okkar aftur og hlúa að hinni uppvaxandi kynslóð og jafnframt að læra af henni ásamt því að vera minnt á þá eiginleika sem við kunnum eitt sinn að hafa átt á æskuárum okkar. Það er hulinn kraftur í einfaldleika og hreinleika!

Við skulum öll vera staðföst og óbifanleg í þeim skilningi sem hér hefur verið fjallað um. Nýtum okkur þá göfugu eiginleika æskunnar, bæði með því að gefa ungu fólki tækifæri en einnig með því að rækta þessa eiginleika hjá okkur sjálfum. Aðeins þannig getum við jafnað okkur, staðið aftur upp með glóðarauga og verið í stakk búin til að leiða Ísland inn í gæfuríka framtíð.

Ronald B. Guðnason verkfræðingur

Genesis

18. desember 2008

Dimmir dagar, mikill snjór. Ísland er annaðhvort að deyja eða að fæðast á ný. Eða bæði í senn. Fólk er að taka eftir þessari breytingu, það finnur fyrir henni. Já, það er jafnvel hluti af henni. Það er teiknuð frekar dökk mynd af landinu um þessar mundir, sem er kannski deyjandi hlutinn. Deyjandi þættirnir eru fallandi gengi, hækkandi vísitala, verðhækkanir, verkefnaleysi, atvinnuleysi, skattahækkanir, gjaldþrot og fjöldi hluta sem snýr að tilfinningalegu lífi fólks.

Fæðingahlutinn er ekki eins skýr skilgreindur að sinni en hann hlýtur að snúa að tækifærum ýmis konar og uppvexti. Það er markmið mitt að auka á fæðingarhlutann, þannig að fólk geti hlotið von og gleði. Byrði þjóðarinnar - sem er okkar allra - verður að léttast.